Við leitum eftir stuðningi stofnana og fyrirtækja til þess að styrkja starf Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi (SKÍ)

Markmið samtakanna er að efla samvinnu þeirra sem vinna að krabbameinsrannsóknum á Íslandi auk þess að efla íslenska krabbameinsfræðasamfélagið með því að auka sýnileika íslenskra krabbameinsrannsókna á erlendum vettvangi jafnframt því að gefa íslensku vísindafólki kost á því að sækja fyrirlestra og hitta erlenda sérfræðinga á sviðinu.

 

Öll vinna í þágu SKÍ er unnin í sjálfboðastarfi og eru samtökin eingöngu rekin fyrir styrkfé

Samtökin samanstanda af faraldsfræðingum, frumulíffræðingum, læknum, hjúkrunarfræðingum, lífeindafræðingum og meinafræðingum, og eru félagsmenn um 150 talsins. Auk þess að halda tvö málþing á ári hverju, styrkja samtökin unga vísindamenn til þess að sækja erlendar ráðstefnur í krabbameinsfræðum, kynna verkefni sín og hitta erlenda sérfræðinga á sviðinu.

 

Þekkingarbrú – krabbameinsrannsóknir á Íslandi og erlendis

Fjármagn til ráðstefnuferða í krabbameinsfræðum er af mjög skornum skammti og eru ferðastyrkir SKÍ því ákaflega mikilvægir. Þátttaka í alþjóðlegum ráðstefnum er gríðarlega mikilvæg til þess að kynna íslenskar rannsóknir en ekki síður til þess að efna til og viðhalda samstarfi við erlendar fræðastofnanir. Að sama skapi er mikilvægt fyrir vísindamenn að geta sótt fyrirlestra færustu sérfræðinga í fræðunum til að fylgjast með helstu straumum og stefnum á sviðinu.

 

Hver styrkveiting skiptir máli í sameiginlegri baráttu okkar

Rannsóknir félagsmanna SKÍ eru jafnólíkar og þær eru margar – en eiga það allar sameiginlegt að hafa það lokamarkmið að bæta meðferðarúrræði krabbameina. Efling þessara rannsókna með bættu samstarfi bæði á Íslandi og erlendis, er mjög mikilvæg í þessari sameiginlegu baráttu okkar.

Því óskum við eftir stuðningi þinnar stofnunar eða fyrirtækis.