Aðalfundur og málþing 2015


Aðalfundur og málþing SKÍ í húsi Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 14. apríl 2015.

Stjórn félagsins var endurkjörin og að auki var Ólafur Andri Stefánsson kjörinn í stjórn. Ferðastyrkir voru afhentir Ástu B. Pétursdóttur, Guðrúnu Nínu Óskarsdóttur, Josue Ballesteros Alvares, Sigurður Rúnari Guðmundssyni og Tobias Roland Richter. Öll eru þau framhaldsnemar sem leggja stund á krabbameinsrannsóknir og munu nýta styrkina til ráðstefnu- og námskeiðaferða.


Yfirskrift málþingsins var:
Nordisk Cancer Union og erlendir styrkjamöguleikar í krabbameinsrannsóknum

 

Sigríður Klara Böðvarsdóttir, rekstrarstjóri Lífvísindaseturs HÍ, fór yfir almenna samantekt á erlendum styrkjamöguleikum til krabbameinsrannsókna. Samantekt hennar var mjög góð og mælum við með að þeir sem ekki komust á fundinn fari í gegnum glærurnar og geti þá jafnvel haft samband við Sigríði Klöru um nánari skýringar.

Þórunn Rafnar er formaður vísindaráðs NCU og kynnti hún starfsemi sjóðsins og þá styrkjamöguleika sem þar eru. Ísland fer nú með formennsku í samtökunum og eru árlega veittir styrkir til rannsókna á Norðurlöndum. Þórunn ræddi hvernig styrkirnir eru sérstaklega ætlaðir rannsóknum sem hafa faraldsfræðilega tengingu og þurfa rannsóknirnar að byggja á samstarfi a.m.k. tveggja Norðurlanda.

Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrárinnar, kynnti mjög áhugaverðar rannsóknir sem byggðar eru á upplýsingum úr skránni. Auk þess fór hún yfir samstarfsmöguleika og hvatti fundargesti til að auka samstarf við skrána. Slíkt samstarf gæti m.a. orðið uppspretta að umsókn í sjóði NCU.

Jakob Jóhannsson, formaður stjórnar Krabbameinsfélagsins, kynnti stöðu vinnu við stofnun rannsóknasjóðs fyrir krabbameinsrannsóknir. Fram kom að vinna við stofnun sjóðsins er langt komin. Umræður sköpuðust og töldu fundargestir mjög mikilvægt að setja ekki skorður á hvers konar verkefni verða styrkt.